Jólagjafahugmyndir: fyrir hann

Ég trúi eiginlega ekki hvað það er stutt í jólin! Mér finnst tíminn fljúga hjá, allt í einu er desember að verða hálfnaður. Ég er rosalega spennt að það sé loksins komið að því að jólasveinarnir fari að koma í heimsókn, veit í alvöru ekki hvor er spenntari, ég eða barnið. Ég er búin að eiga svo notalegan desember, ég held ég hafi bara aldrei átt jafn rólegan desember. Ég ætla að halda seríunni minni áfram með jólagjafahugmyndum fyrir þá sem eiga kannski eftir að græja nokkrar gjafir, jafnvel allar, það er enn nægur tími.

Erum við ekki öll sammála um það að það sé nánast ómögulegt að versla jólagjafir handa karlmönnum? Ég lendi í sama veseninu á hverju ári og hef enga hugmynd hvað ég á að gefa manninum mínum. Hann dílar við algjörlega andstætt vandamál, ég gef honum of margar hugmyndir af gjöfum handa mér svo hann þarf að velja úr haha.

Steamery ferða gufustraujárn – Þetta finnst mér algjör must have græja á hvert heimili, sérstaklega fyrir skyrtur! Nota mína svona græju mjög mikið. Fæst t.d. hér.

Bink vatnsflaska – Falleg vatnsflaska, hvetur mann til þess að drekka meira vatn. Fæst hér.

Canon ljósmyndaprentari – Gaman að eiga til þess að prenta út minningar heima, fæst hér.

Storytell lesbretti – Sniðug gjöf fyrir þá sem lesa mikið, fæst hér.

Kortaveski – Mér finnst mjög sniðugt að gefa fallegt kortaveski í gjöf, mikið úrval til af þeim. Þetta á myndinni fæst hér.

Ullarföðurland – Algjör nauðsyn í vetrarkuldanum hérna heima, hægt að fá á nokkrum stöðum, t.d. hér.

Sonos ferðahátalari – Mamma á svona græju og hún tekur hana alltaf með sér þegar hún fer í ferðalag. Við notuðum hana mikið á hótelinu þegar við fórum til Kaupmannahafnar í vor. Fæst t.d. hér.

Steypujárnspottur – Tilvalin gjöf fyrir kokkinn í fjölskyldunni, fæst t.d. hér.

Jólagjafahugmyndir: heimilið

Jæja löngu komið að því að ég hendi inn færslu hérna. Það er eitthvað svo erfitt að byrja aftur eftir svona langa pásu og maður dettur alveg úr æfingu. Ég er búin að vera liggjandi yfir netverslunum síðustu vikur að skoða hvað ég eigi að gefa fólkinu mínu í jólagjafir. Þess vegna fannst mér góð hugmynd að gera nokkrar færslur með hugmyndum af jólagjöfum ef ykkur vantar fyrir aðra eða ykkur sjálf. Ég ætla að byrja á hugmyndum fyrir heimilið en það er mjög sniðugt t.d. að gefa pörum saman eitthvað fyrir heimilið eða ungu fólki sem er að flytja út.

Watt&veke lampi – Mér finnst þessi ótrúlega fallegur og hann er á góðu verði, fæst hér.

Voluspa kerti – ég elska elska jólailmina þeirra, þið verðið að prófa! Fæst t.d. hér.

Vigt snagar – Ég á þessa snaga frá Vigt og ég elska þá, þeir eru svo fallegir, eins og skúlptur á veggnum. Fást hér.

Keramik úr Norr11 – Það er svo margt fallegt til í Norr11 sem væri gaman að gefa í jólagjöf, t.d. vasar og skálar. Fæst hér.

Bernadotte matarstell – Mér finnst mjög sniðugt að safna smám saman í stell með því að biðja um í gjafir. Mér finnst þessir diskar ótrúlega flottir frá Georg Jensen, fást t.d. hér.

Ferm Living diskar – Ég gaf Karen vinkonu minni þessa í jólagjöf nýlega og mér finnst þeir trylltir. Það er svo flott að nota þá t.d. undir sushi, smárétti, eftirrétti eða osta. Fást t.d. hér.

Stoff kertastjakar – Ég safna þessum og elska að bæta við. Nýjasta viðbótin hjá merkinu er vegghengi fyrir stjakana og mig langar mjög mikið í það. Fæst t.d. hér.

Sápusett – Sniðug gjöf fyrir fólk sem á allt, eitthvað sem fólk kaupir sér yfirleitt ekki sjálft. Fæst t.d. hér.

Hjón!

Loksins loksins er ég komin aftur! Þurfti að tékka hvenær ég setti inn síðustu færslu og það eru liðnir tæpir þrír mánuðir síðan. Það er þó ástæða fyrir fjarveru minni hérna síðustu mánuði en þið sem fylgið mér á Instagram hafið eflaust séð að ég gifti mig í byrjun október. Það hefur því verið mikið að gera síðustu vikur og hugurinn annarsstaðar en við eldamennsku og bakstur en ég verð að viðurkenna að ég hef saknað þess mikið að elda bara í rólegheitum og prófa nýjar uppskriftir. Ég vildi aðeins segja frá brúðkaupinu í þessari færslu og koma svo með uppskrift í næstu.

Við giftum okkur semsagt þann 7. október, en í janúar næstkomandi erum við Oliver búin að vera saman í 8 ár. Við byrjuðum saman þegar við vorum 17 ára en við kynntumst árið 2008 þegar við vorum 10 ára. Við giftum okkur í Lindakirkju og séra Guðmundur Karl gaf okkur saman. Þetta var alveg yndislegur dagur og við gátum eiginlega ekki verið heppnari með veður. Pabbi fékk Friðrik Ómar til þess að syngja í kirkjunni sem var bara sturlað. Hann söng Your song og Simply the best og síðan útgöngulagið, uppáhalds lag Olivers, Everytime we touch hahahaha. Heba frænka mín kom svo til Íslands í nokkra klukkutíma stopp til þess að koma í brúðkaupið, hún býr í Árósum, og hún söng lag sem er mér mjög kært, Ást, en Heba söng það alltaf þegar við vorum litlar og söng það líka í skírninni hennar Emmu sem var einmitt líka í Lindakirkju svo þetta var bara alveg fullkomið.

Ég fékk Hörpu Kára til þess að mála mig og Dagný nágrannakonu mína til þess að greiða mér og ég hefði ekki getað verið sáttari! Við áttum ótrúlega notalega stund saman í rólegheitum og skáluðum svo áður en haldið var í kirkjuna. Elísabet Blöndal ljósmyndari var með mér allan daginn að taka myndir og ég bara gæti ekki mælt meira með henni. Ég sendi á hana hvort hún væri laus þessa dagsetningu áður en ég sendi á kirkjuna því ég vissi að ég myndi ekki gifta mig ef hún gæti ekki myndað, það var eina sem var alveg neglt niður að hún þyrfti að mynda daginn okkar. Ég er búin að fá nokkrar myndir frá henni og ég er í skýjunum með hvernig þær komu út. Ég get bara ekki beðið eftir að fá fleiri myndir frá henni, hún er algjör snillingur. Ég keypti blómvöndinn minn í 18 rauðum rósum í Hamraborg, þær gerðu vöndinn nákvæmlega eins og ég hafði séð hann fyrir mér, mæli algjörlega með þeim, græjuðu hann með mjög litlum fyrirvara en ég gleymdi alveg að spá í vendinum þar til vikunni fyrir daginn. Hemmi maður mömmu lánaði okkur bílinn sinn en hann á geggjaðan Porsche sem við skreyttum og notuðum sem brúðarbíl, það var geggjað að stinga af bara tvö í bílnum eftir kirkjuna.

Við vorum með veisluna í sal Flugvirkjafélags Íslands í Borgartúni. Við vorum með annan sal en skiptum ca 1.5 mánuði fyrir brúðkaup, mér fannst þessi salur bara svo svakalega notalegur og ekta partýsalur, ég mæli alveg með að skoða hann. Konurnar sem voru að vinna í salnum voru algjörir fagmenn og græjuðu allt á 0.1 sem þurfti að græja, voru að blanda í G&T fyrir gesti og voru bara í öllu. Þegar fólk mætti í salinn vorum við með fordrykk, freyðivín, og svo með því popp sem ég (ok Auður Hrönn vinkona) setti í glæra poka. Við fengum svo Grillvagninn til þess að elda ofaní fólkið en þeir mæta með allt með sér og taka allt skítugt leirtau tilbaka, sjúklega næs og það voru allir að tala um hvað maturinn hefði verið æðislegur. Við vorum með lambalæri og kjúkling og allskonar meðlæti og það var allt svakalega bragðgott. Síðan í eftirrétt vorum við með brúðartertu, bakka með allskonar góðgæti (döðlugotti, brownie og fl.) og nammibar en við keyptum í heildsölum 2kg af hverri nammi tegund og settum í stór ílát og vorum svo með nammiskeiðar ofaní og poka til hliðar. Við vorum svo með hvítvín, rauðvín, freyðivín, bjóra og sterkt á barnum og eiginlega alltof alltof mikið af því. Ég held við þurfum að halda nokkur partí í viðbót miðað við afganginn sem var af þessu öllu. Um 11 leitið pöntuðum við fullt af Dominos pizzum sem féllu mjög vel í kramið hjá fólki sem var búið að vera í stuði á dansgólfinu allt kvöldið, mæli mjög mikið með að gera þetta!

Bræður mínir voru veislustjórar sem er hlutverk sem þeir eru fæddir í, þessir tvíburar geta búið til góða stemningu hvar og hvenær sem er. Þeir voru með allskonar leiki og kahoot um okkur þar sem borðin kepptu í liðum. Síðan kastaði ég brúðarvendinum mínum og Auður Hrönn vinkona mín greip hann svo það er mikil pressa á manninn hennar að henda sér á skeljarnar núna! Ég fékk síðan Karel vin minn til þess að DJ-a og það var alveg geggjað, það var stuð á dansgólfinu allt kvöldið, ég mæli með að hafa samband við hann ef ykkur vantar DJ hér t.d.

Við hjónin héldum svo úr veislunni beint á Hilton þar sem við fengum svakalega flott herbergi. Það var mjög næs að leggjast á koddan eftir þennan langa viðburðarríka dag og vakna svo daginn eftir og fara í geggjaðan morgunmat. Við fórum svo beint af Hilton í besta besta Gulla Arnar í Hafnarfirði að sækja pöntun sem ég hafði sent inn fyrir bakkelsi og brauði fyrir 10 manns og fórum heim. Þangað komu foreldrar okkar og systkini og við borðuðum saman og opnuðum gjafir sem við höfðum fengið í rólegheitum, alveg ótrúlega notalegur endir á þessari geggjuðu veislu.

Ég er eflaust að gleyma fullt í þessari færslu en ef þið eruð í brúðkaupshugleiðingum eða viljið vita eitthvað nánar megið þið alltaf senda mér skilaboð á instagram! Í lokin vil ég óska Sigþóru vinkonu minni innilegar hamingjuóskir með afmælið en hún á afmæli í dag og hún er búin að minna mig á að ég hafi ekki sett inn færslu í langan tíma mjög reglulega síðustu daga. Læt fylgja með eina geggjaða af okkur Sigþóru birthdaygirl hérna í lokin, henni til heiðurs:

Tortillarúllur í eldföstu móti

Ég er að reyna að vera betri í því að elda úr afgöngum og því sem er til heima og reyna að minnka matarsóun. Það hefur bara gengið ágætlega, sumt kemur betur út en annað, en annað slagið heppnast rétturinn rosalega vel. Þessi réttur var einn af þeim og var markmiðið að nota grænmetið sem ég átti í ísskápnum sem átti fáeina daga eftir. Ég vildi reyna að fela grænmetið svo að Emma myndi borða vel. Emma borðaði af bestu lyst og það var auka bónus hvað þetta var einfalt.

  • 500 gr nautahakk
  • 1 paprika
  • 2 tómatar
  • 1 laukur
  • 3-4 hvítlauksgeirar
  • 1 grænmetisteningur
  • salt, pipar, cayenne pipar, paprikuduft eftir smekk
  • tortillavefjur
  • salsa sósa
  • rifinn ostur
  • avókadó, sýrður rjómi og snakk

Byrjið á því að skera niður allt grænmetið og steikja það uppúr olíu. Takið grænmetið af pönnunni og setjið í blandara eða maukið með töfrasprota, leyfið aðeins að rjúka úr því fyrst svo blandarinn springi ekki. Steikið hakkið á sömu pönnu. Hellið grænmetismaukinu út á pönnuna ásamt teningnum og kryddið eftir smekk. Hrærið þessu vel saman og leyfið aðeins að malla. Setjið hakkblönduna á tortillurnar og rullið þeim upp. Raðið tortillavefjunum í eldfast mót, toppið þær svo með salsa og rifnum osti. Setjið inn í ofn í 10 mínútur á 180°. Berið fram með avókadó (eða guacamole), sýrðum rjóma og snakki.

Heimsins besta skúffukaka

Seint á fimmtudagskvöldið kom ég heim frá Kaupmannahöfn eftir alveg æðislega ferð. Við frændsystkinin áttum svo góða daga saman og gerðum margt og mikið skemmtilegt. Við fengum bara mjög gott veður, við getum eiginlega ekki kvartað, það rigndi eitthvað smá en annars bara sól og hlýtt. Það er samt alltaf jafn gott að koma heim eftir gott ferðalag, sérstaklega gott að koma heim eftir að hafa verið í burtu frá Emmu og Oliver, að knúsa þau.

Um daginn fórum við í bústað og mér finnst alveg möst að taka með skúffuköku í bústað, eitthvað sem mamma gerði alltaf þegar ég var lítil. Ég var búin að vera að leita að uppskrift til þess að prófa að gera þegar ég kíkti í heimsókn til mömmu. Þá er hún nýbúin að baka skúffuköku eftir sænskri uppskrift og þetta var í alvöru besta skúffukaka sem ég hef á ævinni smakkað, ég er ekki að ýkja! Ég var fljót að mynda hana og fór svo beint heim að baka hana fyrir bústaðinn. Hún fékk mikið lof, ég átti svo sem ekki von á öðru, þið verðið að prófa hana. Kakan sjálf er svo mjúk og djúsí og kremið létt og loftkennt, kakan bráðnar bara í munninum.

  • 4 3/4 dl hveiti
  • 4 3/4 dl sykur 
  • 1 3/4 dl kakó
  • 2 tsk matarsódi
  • 1 1/2 tsk vanillusykur
  • 1/2 tsk salt
  • 2 egg
  • 2,4 dl ab mjólk
  • 2,4 dl grænmetisolía
  • 2,4 dl soðið vatn

Byrjið á að kveikja á ofninum á 175° og smyrjið skúffukökuform. Blandið öllum þurrefnunum vel saman áður en þið bætið eggjunum, ab mjólkinni og grænmetisolíunni saman við. Hrærið öllu saman áður en þið bætið vatninu saman við undir lokin. Passið að hafa hrærivélina stillta á lágan hraða þegar vatninu er bætt út í, deigið verður mjög blautt. Hellið deiginu í skúffukökuformið og bakið í 30-35 mínútur. Leyfið kökunni að kólna alveg.

Kremið

  • 200 g smjör við stofuhita
  • 1- 1/2 dl flórsykur
  • 200 g brætt súkkulaði
  • 2 tsk vanillusykur
  • 3-4 msk rjómi

Bræðið súkkulaðið og leyfið því aðeins að kólna. Þeytið saman smjör og flórsykur þar til það er orðið létt og ljóst. Hellið þá súkkulaðinu út í smjörblönduna og hrærið vel saman. Bætið við vanillusykrinum og rjómanum og hrærið vel, þá er kremið tilbúið og því dreift yfir kökuna.

Kókos-karrí kjúklingaréttur

Ég er svo spennt, ég tók mega skyndiákvörðun í gær og ákvað að bóka mér ferð til Köben! Eins og þið eflaust vitið þá búa yngri bræður mínir í Kaupmannahöfn og við mamma heimsóttum þá núna í maí. Það var svo gaman hjá okkur í þeirri ferð og ég er búin að sakna þeirra svo mikið síðan. Það er svo skemmtilegt að frændi minn ætlar að koma með mér út og frænka mín sem býr í Árósum ætlar að koma með lest svo við verðum öll saman frændsystkinin hjá bræðrum mínum. Ég verð í þrjár nætur og við ætlum bara að hafa gaman saman, spjalla, spila, borða góðan mat og hafa notalegt. Við förum út á mánudaginn, ég verð vonandi dugleg að henda allskonar mat og skemmtilegu í story hjá mér á Instagram.

Ég eldaði þennan rétt og vá hvað hann var góður. Hann varð til úr smá ísskápatiltekt hjá mér en ég nánast sleikti diskinn þegar ég var búin að borða. Rosa auðvelt, tók mig nokkrar mínútur að græja og svo þurfti rétturinn bara að malla í rúman hálftíma, allt í einni pönnu, gæti varla verið einfaldara!

  • 3 kjúklingabringur
  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 rauð paprika
  • brokkolí
  • 2x 250ml fernur kókosmjólk
  • karrí eftir smekk, eða um 2 msk
  • paprikuduft eftir smekk, eða um 1 msk
  • salt og pipar
  • 1 kjúklingateningur
  • 1 dl hrísgrjón

Byrjið á að steikja laukinn, saxaðann, þar til hann er orðinn gegnsær í olíu. Bætið þá við hvítlauknum, smátt söxuðum eða pressuðum og blandið saman við laukinn. Bætið þá kjúklingnum á pönnuna og steikið þar til hann er eldaður á öllum hliðum, bætið þá grænmetinu út á pönnuna, ég setti bara það grænmeti sem ég átti með líka. Bætið síðan kókosmjólkinni út á og kryddunum, teningnum og hrísgrjónunum, hrærið saman og leyfið að malla. Hrærið af og til í svo hrísgrjónin brenni ekki við. Þegar sósan er orðin þykk og hrísgrjónin elduð í gegn þá er rétturinn tilbúinn. Ég bar hann fram með sætum kartöflum sem var mjög gott en alveg hægt að sleppa.

Oreo ostakaka á kladdkökubotni

Ég ætla að deila með ykkur mjög góðri og fljótlegri bombu sem þið verðið að prófa. Pælingin á bakvið hana er að geta skellt í hana með litlum fyrirvara, en þá er gott að vera með kladdkökuna tilbúna eða jafnvel bara kaupa hana. Ég mæli með ef þið ætlið að kaupa hana tilbúna að kaupa Frödinge kladdkökuna, hún fæst amk í Krónunni og er mjög góð. Oreo ostakakan er svo smurð á eins og krem en það er alveg hægt líka að sleppa kladdkökunni og sprauta bara ostakökunni í falleg glös í staðin.

  • Kladdkaka, uppskrift hér
  • 300 gr rjómaostur
  • 1 dl flórsykur
  • 1 msk vanilludropar
  • 2.5 dl þeyttur rjómi (ca 1 dl af rjóma og þeyta hann)
  • 7 oreokex

Þeytið saman rjómaostinum, flórsykrinum og vanilludropunum. Bætið þeytta rjómanum út í rjómaostablönduna og hrærið varlega saman með sleif. Myljið oreo kexin með frjálsri aðferð, ég nota blandara til að fá sem fínustu mylsnuna. Blandið oreomylsnunni saman við. Þá er oreo ostakakan tilbúin og annaðhvort hægt að smyrja henni ofaná kladdkökuna eða sprauta henni í glös með sprautupoka. Berið fram með jarðaberjum og grófsöxuðu oreokexi.

Sumarfrí

Núna er Emma að byrja í sumarfríi á morgun. Hún er svo spennt og er alltaf að spurja hvenær hún fari í sumarfrí, þó henni finnist svakalega gaman á leikskólanum sínum. Við erum ekki með nein plön í sumar, engin ferðalög eða neitt svoleiðis svo ég er búin að vera að safna að mér allskonar hugmyndum til þess að gera sumarið samt sem áður eftirminnilegt og skemmtilegt fyrir Emmu, og okkur. Það getur alveg verið skemmtilegt þó maður sé ekkert að ferðast. Ég ætla að deila með ykkur listanum sem ég er komin með, ef þið viljið nýta hann. Þetta er það sem við Emma erum búnar að skrifa niður, það mun örugglega bætast eitthvað á listann ef við munum eftir einhverju eða prófum nýja róló-a. Það eru til fullt af skemmtilegum rólóum í allskonar hverfum, við þekkjum þó best til í kringum okkur að sjálfsögðu svo tipsin okkar eru flest í Kópavogi, en okkur hlakkar til að bæta í róló meðmælin okkar í sumar.

Fara:

  • í Húsdýragarðinn/Fjölskyldugarðinn
  • í fjöruferð, Álftanes eða Gróttu t.d.
  • á nýjann róló
  • í sund
  • í minigolf
  • í keilu
  • á ærslabelg
  • í ísbúð
  • í Vatnaveröld í Reykjanesbæ
  • á Bjössaróló í Borgarnesi
  • á bókasafn
  • á Gerðarsafn og Náttúrugripasafnið
  • að gefa öndunum
  • í Álafoss kvosina, fallegt leiksvæði og hestar
  • að kíkja í gæludýrabúð á fiskana og dýrin
  • í Nauthólsvík
  • í Háafell geitafjársetur
  • á Árbæjarsafn
  • í Hellisgerði í Hafnarfirði
  • á Klambratún

Gera:

  • Sulla úti á svölum/garði
  • Mála klaka með vatnslitum
  • Búa til leir
  • Hafa danspartí (playlistinn hennar Emmu hér)
  • Baka saman
  • Gera frostpinna úr uppáhalds ávöxtum, form t.d. ódýr hér
  • Vatnsbyssustríð, ég keypti ódýrar vatnsbyssur í Bónus
  • Týna blóm
  • Blása sápukúlur
  • Kríta parís eða listaverk
  • Finna steina og mála þá
  • Finna fallegar skeljar í fjörunni
  • Fara með stækkunargler út að skoða
  • Lautarferð
  • Bjóða fjölskyldu eða vinum í kaffi
  • Út í fótbolta eða körfubolta
  • Bíó kósíkvöld
  • Grilla pulsur og sykurpúða
  • Fara í skógarferð
  • Fara út á hjól/hlaupahjól
  • Fara í kubb
  • Fara í snúsnú/sippa
  • Fara í frisbígolf
  • Búa til vinabönd
  • Bílabingó
  • Strandblak í Nauthólsvík
  • Labba kringum vatn, t.d. Vífilstaðavatn eða Rauðavatn
  • Skoða Maríuhelli
  • Fara í bakarí

Skemmtilegir leikvellir:

  • Bjössaróló, Borgarnesi
  • Rútstúni, Kópavogi
  • Guðmundarlundur, Kópavogi
  • Salaskóli, Kópavogi
  • Hörðuvallaskóli, Kópavogi
  • Kór, Kópavogi
  • Arnarsmári, Kópavogi
  • Urriðaholtsskóli, Garðarbæ
  • Björnslundur Í Norðlingaholti, Reykjavík
  • Hljómskálagarðurinn, Reykjavík
  • Álafoss kvosin, Mosfellsbæ
  • Hulduberg, Mosfellsbæ

Útskrift og nýir tímar

Í dag vann ég síðasta daginn minn í vinnunni minni. Ég var búin að vinna þar í rúm 5 ár og eignaðist þar góða vini og góðar minningar. Við taka spennandi tímar hjá mér. Ég er komin með nýja vinnu sem ég byrja í eftir sumarfrí. Ég er mjög spennt en staðan er 50% staða svo ég mun hafa góðan tíma til þess að sinna blogginu, sem mér finnst alveg geggjað. Ég er núna komin í langt sumarfrí sem er ótrúlega næs, veðrið mætti þó alveg fara aðeins að skána mín vegna! Við fjölskyldan ætlum yfir helgina til Akureyrar sem verður rosalega gaman, ég er svo spennt að fara með Emmu í jólahúsið, hún elskar jólin meira en allt! Ég sjálf fór oft til Akureyrar sem barn en hef svo ekki farið þangað síðan 2014.

Á laugardaginn s.l. útskrifaðist Oliver með B.Ed. gráðu í Leikskólakennarafræði í Háskóla Íslands. Við héldum auðvitað vel uppá það með góðu partíi hérna heima. Við vorum með fullt af veitingum og drykkjum, allt alveg sjúklega gott. Ég ætla að sýna ykkur nokkrar myndir af veitingunum.

Mamma gerði sjúklega góðar brownies með karamellukókos og sjónvarpsköku að ósk útskriftardrengsins. Tengdó gerði döðlugott, amma gerði pönnukökur með sykri (aftur að ósk Olivers) og Guðrún gerði geðveikt ostasalat sem ég hafði á ostabakka með kexi.

Ég gerði svo franska súkkulaðiköku og blinis. Ég gerði bæði blinis með kavíarnum og svo líka með parmesan-trufflukremi og hráskinku, með innblæstri frá geggjuðum rétti sem ég smakkaði á OTO Restaurant, og það var alveg klikkað gott.

Síðan pöntuðum við mini borgara frá Tasty sem fengu góð viðbrögð gesta og snittur frá Tertugallerí.

Það var mikið stuð og allir sáttir (og vel saddir) eftir daginn.

Ég er spennt fyrir löngu sumarfríi með ykkur kæru blogglesendum stútfullt af uppskriftum og allskonar!

Blinis með kavíar

Gleðilega hátíð (í fyrradag)! Við byrjuðum daginn á því að labba niður á Versalavöll á 17. júní skemmtun þar sem Emma fór í hoppukastala og fékk andlitsmálningu. Hún var svo ekkert rosalega hrifin af hvað var mikið af fólki þarna svo við fórum þaðan og keyptum ís á Valdís. Svo fórum við heim að græja fyrir matarboð sem við vorum með. Það var ótrúlega skemmtilegt, mamma og Hemmi komu með nautalund og meðlæti, meira að segja eftirrétt svo ég þurfti nú ekki að gera mikið. Ég ákvað að gera blinis og hafa búbblur með sem var alveg geggjað kombó. Við Oliver fórum svo í útskriftarveislu um kvöldið hjá vinkonu okkar sem var að útskrifast með ML í Lögfræði úr HR, alveg geggjað hjá henni.

Ég ætla að deila uppskriftinni að þessum blinis með ykkur, en hún er ofur einföld.

  • Blinis – ég keypti tilbúnar hjá Garra hér, en þið getið líka gert sjálf, það eru til fullt af uppskriftum á netinu
  • Sýrður rjómi, ég nota 18%
  • Rauðlaukur
  • Graslaukur
  • Kavíar, ég notaði Icelands finest krukkuna

Smyrjið sýrða rjómanum yfir lummurnar. Fínhakkið rauðlaukinn og graslaukinn, ég notaði í þetta skipti vorlauk þar sem graslaukur var ekki til í búðinni sem var líka gott. Stráið yfir sýrða rjómann og toppið svo með kavíarnum. Mjög gott að bera fram með búbblum.